Lífið

Ekki of seint að byrja

Bjarki Ármannsson skrifar
Kjartan valur með dóttur sinni.
Kjartan valur með dóttur sinni. Fréttablaðið/Vilhelm
Formleg opnunarhátíð Hnefaleikafélags Kópavogs og bardagaíþróttafélagsins VBC í nýju húsnæði verður haldin milli 14 og 17 á laugardag. Til stendur að kynna starf félaganna tveggja á næsta vori.

„Við erum að flytja inn í 800 fermetra húsnæði við Smiðjuveg 28 í Kópavogi,“ segir Kjartan Valur Guðmundsson, formaður Hnefaleikafélags Kópavogs. Að sögn Kjartans verður meðal annars boðið upp á sýningarglímur auk þess sem rapparinn Sesar A mun taka lagið ásamt félögum sínum. Einnig verða léttar veitingar í boði fæðubótarefnisframleiðandans Nutramino.

Eins og fyrr segir munu félögin kynna námskeið sín og kennslu á opnunarhátíðinni og hvetur Kjartan sem flesta til að mæta.

„Við í Hnefaleikafélaginu erum bara með hnefaleika, en VBC bíður til dæmis upp á brasilískt jiu-jitsu og „Freestyle Wrestling“, sem er svona eins og háskólaglíma,“ segir Kjartan um það sem er í boði. Hann segir félögin bjóða upp á námskeið fyrir fólk á öllum aldri.

„Við erum með alveg frá hópum fyrir börn sem eru sjö, átta ára yfir í hópa fyrir konur um sextugt,“ segir Kjartan. „Sú elsta er 55 ára gömul amma, sem sýnir bara að það er aldrei of seint að byrja.“

Skráning fullorðsins fólks í bardagaíþróttir hefur aukist að undanförnu að sögn Kjartans. „Fólk er að fatta að þetta er með betri líkamsrækt sem maður fær,“ segir hann. „Í einum tíma er maður að brenna kannski 600-700 kaloríum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×