Innlent

"Fáum borgað í platpeningum"

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Samfylkingin verður að höfða til miðjunnar og veita Sjálfstæðisflokknum samkeppni um hugmyndir ef hún ætlar að hafa styrk til að mynda jafnaðarstjórn að nýju eftir kosningar, segir Árni Páll Árnason, en hann átti sviðið á síðari framboðsfundi Frjálslyndra jafnaðarmanna. Þá sagði hann baráttuna fyrir nýrri mynt stærstu stéttabaráttu sem hann þekkti.

Í fréttum okkar á föstudag fjölluðum við um hádegisfund sem Félag frjálslyndra jafnaðarmanna (FFJ) hélt með Guðbjarti Hannessyni og nú var komið að Árna Páli, en félagið er eitt af aðildarfélögum Samfylkingarinnar í Reykjavík. Nú eru tíu dagar í að rafræn allsherjaratkvæðagreiðsla um formannskjörið í Samfylkingunni hefjist, en hún verður dagana 18.-28. janúar.

Árni Páll lagði mikla áherslu á efnahagsmál í erindi sínum á fundinum. „Við höfum að náð að komast í áttina að jöfnuði í ríkisfjármálum en við höfum ekki komist þangað og það blasir við mikill útgjaldaþrýstingur á næstu árum. Og við vitum að ef við náum ekki tökum og höldum tökum á ríkisútgjöldum í þágu þjóðarinnar allrar þá getur beðið okkar á ný sú staða að efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar sé í hættu," sagði Árni Páll meðal annars í erindi sínu.

„Fáum borgað í platpeningum"

Þá var gjaldmiðilsmálið í forgrunni. „Við verðum að komast út úr þeirri ömurlegu stöðu sem við höfum búið við alveg frá því að vistarbandið var afnumið með örstuttu hléi, að við fáum borgað í platpeningum en á okkur fellur kostnaður í alvöru peningum."

Árni sagði að baráttan fyrir nýrri mynt væri stærsta hagsmunamálið. „Baráttan fyrir gjaldmiðli sem er sá sami og við skuldum í er stærsta hagsmunamálið er stærsta stéttabarátta sem ég þekki og ég held að nokkur þjóð hafi nokkru sinni staðið frammi fyrir. Íslensk launamannastétt er jafn valdsvipt nú og hún var fyrir aldamótin 1900."

Árni Páll sagði að þjóðin hefði sagt skoðun sína á stjórnarskránni í atkvæðagreiðslu um tillögu stjórnlagaráðs. Kyrrstaða væri ekki valkostur. Varðandi stjórnarmyndun sagði hann að fyrsti kostur væri myndun stjórnar til vinstri. Hins vegar væri það ekki hægt ef Samfylkingin höfðaði ekki til miðjunnar.

„Ef við veitum ekki Sjálfstæðisflokknum keppni um hugmyndir, ef við höfðum ekki til fólks á miðjunni þá munum við aldrei ná að mynda vinstristjórn."

Hann sagði að Samfylkingin yrði að sækja fylgi inn á miðjuna ef flokkurinn ætlaði að mynda vinstristjórn.

Árni Páll átti í sömu vandræðum og Guðbjartur eftir fundinn, þegar samanburður við keppinautinn var annars vegar.

Í hnotskurn, hver er munurinn á þér og Guðbjarti? „Það er annarra að meta hann, en ég veit hvað ég stend fyrir. Ég held það skipti Samfylkinguna miklu á þessum tímapunkti og þjóðina miklu að hafa sterkan jafnaðarmannaflokk. Samfylkingin þarf að nýta styrkleika sinn og nýta fjölbreytnina og leiða umbreytingar á íslensku samfélagi okkur öllum til góðs." thorbjorn@stod2.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×