Viðskipti innlent

Mikil velta á gjaldeyrismarkaðinum þegar gengi krónunnar hrapaði

Mikil velta var á gjaldeyrismarkaðinum í síðasta mánuði en þá veiktist gengi krónunnar verulega og hefur ekki verið veikara í tæp þrjú ár.

Heildarvelta á millibankamarkaðinum með gjaldeyri nam rúmlega 20 milljörðum kr. í desember sem er 31,7% meiri velta en í fyrri mánuði. Raunar er um næstmestu veltu að ræða í einstökum mánuði á síðasta ári en í júlí nam veltan tæpum 22 milljörðum kr. Gjaldeyriskaup Seðlabankans námu 3 milljörðum kr. eða 14,9% af veltunni að því er segir í hagtölum Seðlabankans.

Eins og kunnugt er af fréttum veiktist gengi krónunnar mikið eða yfir 5% í desember. Fram hefur komið að það var Landsbankinn sem keypti stórann hlut af fyrrgreindum 20 milljörðum kr. vegna greiðslu af skuldabréfinu sem gefið var út milli gamla og nýja bankans upp á um 300 milljarða kr. Þetta bréf verður að gera upp í gjaldeyri en afborganir af því eru hafnar.

Þá hefur Seðlabankinn tilkynnt að vegna veikingar krónunnar er bankinn tímabundið hættur við regluleg kaup sín á gjaldeyri á þessum markaði en þau námu 3 milljónum evra á viku eða fyrir um hálfan milljarð króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×