Innlent

Ekki lögbrot að strjúka einn - bara ef menn eru tveir eða fleiri

BBI skrifar
Mismunandi reglur gilda um fanga sem strjúka úr fangelsum á Íslandi, eftir því hvort margir fangar sammælast um að strjúka eða einn fangi tekur upp á því óstuddur.

Samkvæmt 110. grein almennra hegningarlaga er refsivert ef fangar sem eru í fangelsi sammælast um að strjúka. Það varðar fangelsi allt að 3 árum. Hvorki þessi lagagrein né nokkur önnur í hegningarlögunum gildir hins vegar um fanga sem ákveða einir að strjúka.

„Þetta ákvæði er skýrt sérstaklega í greinargerð með vísan til þess að sökum hættu sem stafar af samtökum refsifanga um að strjúka sameiginlega þyki nauðsynlegt að taka sérstaklega á því," segir Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra.

Ögmundur bendir aftur á móti á að þó það sé ekki lögbrot að strjúka einn úr fangelsi gildi engu að síður reglur um það sem fram koma í innanhússreglum fangelsa. „Þeir sem það gera eru látnir sæta agaviðurlögum, sem yfirleitt er einangrunarvist í einhvern tíma," segir Ögmundur. „Og aftan við þá refsingu sem þeir hafa hlotið bætist sá tími sem þeir eru burtu úr fangelsinu."

Fangar sem strjúka einir úr fangelsi geta því ekki hlotið dóm fyrir brot á lögum vegna þess en verða aftur á móti beittir agaviðurlögum sem fangelsisyfirvöld ákveða.

Ögmundur segir að samsvarandi lög sem voru í gildi á norðurlöndunum hafi verið endurskoðuð að þessu leyti. „Mér finnst rétt að þessi lög, rétt eins og öll önnur lög, séu stöðugt í endurmati.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×