Fótbolti

Anelka með Juventus næstu fimm mánuðina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nicolas Anelka.
Nicolas Anelka. Mynd/Nordic Photos/Getty
Franski framherjinn Nicolas Anelka er orðinn leikmaður ítalska liðsins Juventus og mun klára tímabilið með ítölsku meisturunum. Anelka kemur á láni frá kínverska félaginu Shanghai Shenhua.

Beppe Marotta, framkvæmdastjóri Juventus, sagði við Sky Sport Italia að Nicolas Anelka væri kominn til félagsins til að bregðast við neyðarástandi í sóknarleik liðsins.

Nicolas Anelka yfirgaf Chelsea fyrir ári síðan og hefur Frakkinn seinna fengið Didier Drogba, fyrrum liðsfélaga sinn hjá Chelsea, til sín til Kína.

Juventus er þegar búið að ganga frá því hvaða leikmaður tekur síðan við af Anelka því Fernando Llorente, framherji Athletic Bilbao, kemur til Juve í sumar.

Nicolas Anelka er 33 ára gamall og hefur spilað með mörgum af frægustu félögum heims eins og Arsenal, Real Madrid, Paris Saint-Germain, Liverpool, Manchester City og Chelsea.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×