Sport

Gunnar fær nýjan andstæðing

Nordic Photos / Getty Images
Gunnar Nelson mun mæta Jorge "The Sandman" Santiago í UFC-keppninni á Wembley þann 16. febrúar næstkomandi en ekki Justin "Fast Eddy" Edwards eins og til stóð. Ástæðan er sú að Edwards er meiddur.

Það verður heldur betur við ramman reip að draga hjá Gunnari en Santiago þessi á 35 bardaga að baki og þar af hefur hann unnið 25. Hann er með svart belti í brasilísku jui-jitsui og hefur unnið 10 bardaga með rothöggi en 13 með uppgjöf. Edwards á hins vegar 10 bardaga að baki og Gunnar ellefu.

"Við fengum að vita þetta í morgun svo við eigum eftir að skoða hann betur en Santiago er mun erfiðari andstæðingur enda með gríðarlega reynslu," segir Haraldur Nelson, faðir og umboðsmaður Gunnars.

Santiago, sem er 31 árs, hóf feril sinn hjá UFC árið 2006. Hann vann fyrsta bardagann en tapaði næstu tveim. Þá gerði hann samning við önnur bardagasambönd þar til hann snéri aftur í UFC árið 2011. Hann tapaði tveimur fyrstu bardögunum en hefur unnið tvo síðustu, báða í fyrstu lotu.

Santiago keppti í milliþungavigt, næsta þyngdarflokki fyrir ofan Gunnar,og varð meistari hjá Sengkoku bardagasambandinu árið 2009. Titilbardagi hans gegn Kazuo Misaki var valinn besti bardaginn af vefsíðunum Sherrd og Inside MMA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×