Fótbolti

Það versta við árin í Englandi: Pressan, veðrið og maturinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mario Balotelli með AC Milan búninginn.
Mario Balotelli með AC Milan búninginn. Mynd/Nordic Photos/Getty
Mario Balotelli var kynntur sem nýr leikmaður AC Milan á blaðamannafundi í kvöld en ítalska félagið keypti hann frá Manchester City fyrir 19 milljónir punda.

Mario Balotelli spilaði í tvö og hálft ár með Manchester City en hann kom til liðsins frá Internazionale sumarið 2010. Balotelli var spurður á blaðamannafundinum hvað væri það versta við dvölina á Englandi.

„Fyrst pressan, svo veðrið og loks maturinn," svaraði Mario Balotelli. Hann skoraði 20 mörk í 54 leikjum í ensku úrvalsdeildinni en aðeins eitt þeirra kom á þessu tímabili.  „Ég mun sakna liðsfélagana og stjórans en að öðru leiti sakna ég ekki neins frá Englandi," sagði Balotelli.

Balotelli er ánægður með að vera kominn heim og til AC Milan. Það vakti ekki miklar vinsældir hjá stuðningsmönnum Internazionale á sínum tíma þegar upp komst að Balotelli var stuðningsmaður AC Milan í æsku.

Árin hjá Manchester City voru Balotelli erfið en líkt og hjá Internazionale þá er drengurinn sérstaklega duglegur að koma sér í vandræði með furðulegri og barnalegri hegðun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×