Körfubolti

Teitur Örlygs: Vona að lagið hans Kjarra verði spilað

Elvar Geir Magnússon skrifar
Mynd/Daníel
Stjarnan vann verðskuldaðan sigur á Grindavík í bikarúrslitaleik karla í körfubolta í dag. Teitur Örlygsson, þjálfari Stjörnunnar, var að vinna sinn annan bikartitil með félaginu.

"Þetta var "dead solid" eins og maðurinn sagði. Þetta var flott sett upp hjá okkur. Ég er virkilega ánægður. Spennustigið var alveg hárrétt. Búið var að tala um bekkinn hjá Grindavík og breiddina hjá þeim. Menn voru að koma vel af bekknum og með kraft hjá okkur. Þjálfarar elska það og við verðum að hafa í okkar liði," sagði Teitur eftir leikinn.

"Mér fannst liðið aldrei veikjast í þessar 40 mínútur."

Fyrir leikinn bjuggust fleiri við sigri Grindavíkur. Var það að hjálpa Stjörnunni í undirbúningnum?

"Ég veit það ekki. Ég reyndi að bulla aðeins viljandi í viðtölum í vikunni en ég held að það hafi ekki skipt neinu máli. Þeir eru klárari en það. Það er ekki eins og þetta Grindavíkurlið sé ungt. Þeir eru skynsamir. Við erum ekki heldir ungt lið og skynsamir svo við vorum ekkert að missa sjálfstraustið eftir þessa þrjá ósigra í röð. Við lékum okkur aðeins með það en vorum vel undirbúnir."

"Það var æðislegt að sjá alla Garðbæingana í stúkunni og hvað þetta var allt blátt. Kjarri (Kjartan Atli Kjartansson) söng að bikarinn væri blár í ár, ég ætla að vona að það lag verði spilað eitthvað í kvöld."

Það er verið að skapa heljarinnar körfuboltahefð í Garðabæ. "Það eru ekki mörg lið sem hafa unnið tvo bikartitla á síðustu árum. Það er virkilega gaman en mér og okkur er langað að taka annan titil. Við ætlum að rífa okkur upp þar og það byrjar á mánudaginn," sagði Teitur Örlygsson eftir leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×