Innlent

Tekist á um vitnalista í máli Gunnars Þ. Andersen

Gunnar Þ. Andersen.
Gunnar Þ. Andersen.
Tekist verður á um vitnalista í máli Gunnars Þ. Andersen, fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins í dag en munnlegur málflutningur fer fram í málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur. Gunnar, ásamt starfsmanni Landsbankans, eru ákærðir fyrir brot á bankaleynd og brot í opinberu starfi. Gunnar á að hafa lekið upplýsingum um félag tengt þingmanni Sjálfstæðisflokksins, Guðlaugi Þór Þórðarsyni, til DV, sem fjallaði svo um upplýsingarnar sem þeir fengu í hendur.

Gunnar hefur reyndar einnig kært þingmanninn, auk Ágústu Johnson eiginkonu hans, og Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans, til embættis sérstaks saksóknara, eins og greint var frá í DV í nóvember á síðasta ári. Nú vill hann einnig að þau þrjú beri vitni í málinu og það snýst málflutningurinn samkvæmt frétt Viðskiptablaðsins.

Meðal þess sem Gunnar sakar þau um eru mútur, umboðssvik og aðild að málum sem tengjast eignarhaldsfélaginu Bogamanninum. Rannsókn er ekki hafin í þessu máli samkvæmt heimildum Vísis.

Þetta er í þriðja skiptið sem munnlegur málflutningur fer fram í máli Gunnars. Hann krafðist þess að saksóknarinn, Helgi Magnús Gunnarsson, viki, þar sem hann sótti eitt sinn um starf forstjóra FME. Því var hafnað.

Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði svo kröfu Gunnars í nóvember síðastliðnum um að lagt yrði fyrir saksóknara að afla upplýsinga um gögn og viðskipti Landsbanka Íslands við eignarhaldsfélagið Bogamanninn. Skömmu síðar kærði Gunnar málið til Sérstaks saksóknara og birtist þá frétt DV um málið, örfáum dögum fyrir prófkjör Sjálfstæðismanna í Reykjavík, þar sem Guðlaugur bauð sig fram.

Upphaf átaka á milli Guðlaugs Þórs og Gunnars má rekja til umfjöllunar Kastljóss fyrir um ári síðan. Gunnar fullyrti skömmu eftir að stjórn FME kærði hann til lögreglu að Guðlaugur Þór hefði lekið upplýsingum um sig í Kastljósið.

Munnlegum málflutningi lýkur um hádegið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×