Innlent

Njósnabíll við Njarðvíkurhöfn

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Bíllinn umdeildi stendur við höfnina.
Bíllinn umdeildi stendur við höfnina. Mynd/ Hilmar Bragi.
Bíll með falinni myndavél hefur undanfarna daga staðið við Njarðvíkurhöfn. Bíllinn er á vegum Fiskistofu samkvæmt upplýsingum frá lögreglu til að fylgjast með löndun í höfninni.

Bílinn var fjarlægður seint í gær, fljótlega eftir að myndir af honum birtust á vef víkurfrétta en þá hafði hann staðið á nokkrum stöðum við höfnina undanfarna daga. Bílnum var lagt við hafnarsvæðið í Njarðvíkurhöfn og í afturglugga hans mátti greina falda myndavél sem beint var að hafnarsvæðinu.

Lögreglan á Suðurnesjum kannaðist lítillega við málið þegar fréttastofa heyrði í henni í morgun, lögreglumenn hefðu farið í höfnina og athugað með bílinn eftir að hafa fengið ábendingu um málið og staðfesti hún að bíllin hefði verið á vegum Fiskistofu en sá ekkert athugavert við myndavélina, það sé ósköp eðlilegt að Fiskistofu sé gert að fylgjast með löndun. Samkvæmt heimildum Víkurfrétta er bíllinn bílaleigubíll.

Pétur Jóhannsson hafnarstjóri Reykjaneshafnar sagði í samtali við fréttastofu í morgun að Fiskistofa hafi oft verið að fylgjast með löndun og hvort verið væri að landa framhjá vigt, en hann hafði ekki áður heyrt um að þeir hafi verið með falda myndavél í bíl. Hann frétti af málinu í gær og sagðist vita af því að bíllinn hefði verið að trufla starfsmenn í höfninni, þeim hefði þótt óþægilegt að hafa hann þarna.

Ekki náðist í Eyþór Björnsson fiskistofustjóra í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×