Viðskipti innlent

Íslendingar fara fjórum sinnum á ári í bíó

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Djúpið og Skyfall voru meðal mest sóttu kvikmynda ársins 2012 á Íslandi.
Djúpið og Skyfall voru meðal mest sóttu kvikmynda ársins 2012 á Íslandi.
Seldum miðum í íslensk kvikmyndahús fækkaði um 4.3 prósent árið 2012 miðað við árið áður. Á sama tíma varð 2.7 prósenta aukning í miðasölutekjum, en þær voru um einn og hálfur milljarður á árinu.

Snæbjörn Steingrímsson hjá SMÁÍS (Samtökum myndrétthafa á íslandi) segir nokkra þætti skýra þennan mismun, og gott gengi íslenskra kvikmynda vera einn af þeim.

„Bæði Svartur á leik og Djúpið voru rosalega sterkar, og þar sem er dýrara inn á íslenskar myndir þá hafði það áhrif á tekjurnar," segir Snæbjörn og nefnir einnig vinsældir þrívíddarmynda í þessu samhengi, sem einnig er dýrara inn á.

Um 1.4 milljónir miða seldust í fyrra og það þýðir að Íslendingar fari að meðaltali rúmlega fjórum sinnum í bíó á ári (4.375).

„Það er mjög mikið. Það er eiginlega spurning hvort það sé heimsmet," segir Snæbjörn. „Við vorum í það minnsta með heimsmet í bíóferðum miðað við gömlu góðu hausatalninguna."

En hvernig skýrir Snæbjörn minnkandi aðsókn í kvikmyndahús?

„Það er mjög erfitt að segja. Samkeppnin um afþreyingu er auðvitað alltaf að aukast. Meira efni er aðgengilegt í gegn um internetið og svo eru sjónvarpsstöðvarnar farnar að bjóða upp á það sem kallast „frelsi" - það að geta horft á efni eftir að það hefur áður verið sýnt."

Snæbjörn segir þessa lækkun þó lítið til að hafa áhyggjur af. „Þetta er á góðu róli. Bíómarkaðurinn hér var náttúrulega svo óheyrilega sterkur að það var held ég aldrei raunhæft að hann myndi halda sér algjörlega. En þetta er svo lítil lækkun að ein bíómyndabomba hefði snúið þessu við."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×