Erlent

Carrie Fisher leikur Leiu prinsessu á ný

Fregnir herma að bandaríska leikkonan Carrie Fisher muni á ný taka sér stöðu meðal uppreisnarmanna í fjarlægri vetrarbraut.



Eins og frægt er orðið fór Fisher með hlutverk Leiu prinsessu í Stjörnustríðsmyndunum gömlu.



Í samtali við fréttablaðið Palm Beach Illustrated sagði Fisher að hún myndi fara með hlutverk Leiu í nýrri Star Wars kvikmynd sem væntanleg er í kvikmyndahús árið 2015.



Fyrsta Stjörnustríðsmyndin kom út árið 1977.



Aðspurð um hvernig hún sæi prinsessuna fyrir sér í dag svaraði Fisher: "Hún er gömul. Líklega föst á elliheimili í fjarlægri vetrarbraut. En ég er sannfærð um að Leia hefur lítið breyst, kannski örlítið hægari en áður."



Eins og greint hefur verið frá mun kvikmyndagerðarmaðurinn J.J. Abrams fara með leikstjórn nýjustu Stjörnustríðsmyndarinnar.



Þá hefur Harrison Ford einnig lýst áhuga sínum á að munda geislabyssu Han Solo aftur - endurkoma hans hefur þó ekki verið staðfest. Að sama skapi er óvíst hvort að Mark Hamill sé reiðubúinn að rifja gamla takta í hlutverki Loga Geimgengils





Fleiri fréttir

Sjá meira


×