Innlent

Ekki ósátt við lítið fylgi

Hugrún Halldórsdóttir skrifar
Margrét Tryggvadóttir liðsmaður Dögunar segist ekki óánægð með það tæplega tveggja prósenta fylgi sem flokkur hennar mælist með í nýrri könnun. Hún efast um að allir þeir flokkar sem hafa sótt um listabókstaf verði með í kosningabaráttunni í lok apríl.

Framsókn, Sjálfstæðisflokkurinn, Samfylkingin, Björt Framtíð og Vinstri Grænir mælast með tæplega níutíu prósenta fylgi samkvæmt nýrri könnun Stöðvar 2 og Fréttablaðsins. Aðrar stjórnmálahreyfingar ná ekki fimm prósenta fylgi en Dögun, sem heldur landsfund sinn í dag, mælist með eitt komma sex prósenta fylgi.

„Ég get ekki verið ósátt við það. Það sem er merkilegt við þessar kannanir er að það er gríðarlegt flökt á fylgi og það eru margir mjög óákveðnir ennþá þannig að ég held að núna sé einmitt tækifærið til þess að gera raunverulegar breytingar," segir Margrét Tryggvadóttir, þingmaður og félagi í Dögun.

Aðspurð hvort róðurinn verði ekki erfiður í ljósi þess að fjölmörg ný framboð berjast um hituna svarar Margrét: „Jú, það er erfitt og ég efast um að allir flokkar sem hafa fengið og sótt um listabókstaf komi til með að verða í framboði því það er á brattann að sækja. Við erum hins vegar búin að vera að undirbúa okkur í meira en ár, þetta eru eiginlega að verða tvö ár sem við höfum verið að vinna að okkar málum."

Margrét telur þetta hugsanlega veita Dögun ákveðið forskot enda stór hópur sem kemur að framboðinu. „Þannig að ég held að við höfum visst forskot þegar kemur að því," segir hún að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×