Innlent

Segir mikilvægt að byggja nýja flugstöð í Skerjafirðinum

Höskuldur Kári Schram skrifar
Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, segir mikilvægt að byggja nýja flugstöð í Skerjafirðinum fyrir innanlandsflug. Hann telur að ekki séu til peningar til að flytja flugvöllinn upp á Hólmsheiði.

Reykjavíkurborg gekk á fimmtudag frá samkomulagi um kaup á 112 þúsund fermetra byggingarlandi á miðjum flugvellinum í Vatnsmýri. Landið er í eigu ríkisins en einni flugbraut verður lokað og til stendur að byggja 800 íbúðir á svæðinu.

Kristján Þór Júlíusson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, gagnrýndi þetta samkomulag á Alþingi í gær, en hann vill að Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra beiti sér í málinu.

Uppbyggingin á svæðinu fer ekki af stað fyrr en innanríkisráðuneytið hefur formlega tilkynnt um lokun flugbrautarinnar. Samkomulag þessa efnis liggur ekki fyrir.

Ögmundur hefur áður lýst því yfir að hann sé mótfallinn þeirri hugmynd að flugvöllurinn verði fluttur úr Vatnsmýrinni upp á Hólmsheiði.

„Við höfum átt í viðræðum við Reykjavíkurborg um aðstöðu fyrir innanlandsflugið á Reykjavíkurflugvelli. Ég hef reyndar lagt áherslu á þetta allar götur síðan ég kom inn í ráðuneytið 2010. Þetta mál hefur verið í öngstræti lengi og það væri óskandi að við kæmumst út úr því öngstræti en þá þurfum við líka binda ýmsa spotta sem eru óhnýttir í þessu máli. og við höldum áfram viðræðum við Reykjavíkurborg," segir Ögmundu sem bætir við að það séu ekki til peningar til að flytja Reykjavíkurflugvöll upp á Hólmsheiði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×