Fótbolti

Balotelli besta lausnin við kynþáttafordómum á Ítalíu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mario Balotelli.
Mario Balotelli. Mynd/Nordic Photos/Getty
Ítalska knattspyrnugoðsögnin Gigi Riva telur að Mario Balotelli, leikmaður AC Milan og ítalska landsliðsins, sé besta vopnið í baráttunni gegn kynþáttafordómum á Ítalíu en kynþáttaníð úr stúkunni hefur verið mjög áberandi á þessu tímabili og hefur Balotelli fengið að kynnast því sjálfur.

Mario Balotelli hefur skorað 7 mörk í 6 deildarleikjum síðan að hann kom til AC Milan frá Manchester City í janúar. Hann er án nokkurs vafa nýja hetjan í ítalska fótboltanum og það telur Riva að geti hjálpað mikið í baráttunni á móti kynþáttfordómum á Ítalíu.

Gigi Riva er orðinn 68 ára gamall en hann er markahæsti leikmaður ítalska landsliðsins frá upphafi með 35 mörk í 42 leikjum frá 1965 til 1974. Hann lék nær allan sinn feril með Cagliari.

„Balotelli er mikill karakter með sterka siðferðiskennd. Það væri besta lausnin við kynþáttafordómum á Ítalíu að hafa svartan leikmann sem stærstu stjörnuna í ítalska boltanum," sagði Gigi Riva og bætti við.

„Ég lít á Balotelli sem táknmynd þess að vera Ítali og þess vegna er hann mjög mikilvægur. Hann getur verið dæmisagan í baráttunni við að útrýma því ógeði sem kynþáttafordómar eru," sagði Riva.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×