Innlent

Dýrasta skip Íslendinga smíðað fyrir olíuborpalla

Kristján Már Unnarsson skrifar
Tilkynnt var í dag um smíði á fyrsta sérhæfða skipi Íslendinga til að þjónusta olíuborpalla. Þetta er jafnframt dýrasta skip sem íslenskt fyrirtæki hefur keypt.

Skipið verður smíðað í Noregi, kostar 7,3 milljarða króna, og verður afhent nýju íslensku félagi, Fáfni Offshore, í júlí á næsta ári. Aðaleigandi þess er Steingrímur Erlingsson en heimahöfn skipsins verður í Fjarðabyggð. Skipið er sérhæft til að flytja borstangir og annan varning til olíuborpalla en Færeyingar eru meðal þeirra sem komið hafa sér upp flota slíkra þjónustuskipa á undanförnum árum.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra tilkynnti um smíðasamninginn á fundi í Fosnavaag í Noregi í dag. Í tilkynningu utanríkisráðuneytisins kemur fram að þetta sé dýrasta skip sem íslenskt fyrirtæki hafi keypt og er haft eftir ráðherranum að smíði þess marki tímamót í iðnaðarsögu Íslendinga.

„Ég fagna því frumkvæði sem Fáfnir Offshore sýnir og tel að smíði fyrsta íslenska skipsins til að þjónusta olíuleit marki tímamót í iðnaðarsögu okkar Íslendinga. Fyrstu leyfin til olíuleitar hafa verið gefin út og ég er sannfærður um þetta skip mun vera upphafið að happasælli nýrri atvinnugrein; þjónustu við olíuleit- og vinnslu," segir Össur.

Skipið er sérstaklega byggt og styrkt fyrir aðstæður í Norður-Íshafi og verður tæplega 90 metra langt. Á því verður m.a. þyrlupallur og sérstakur eldvarnar- og hreinsibúnaður ef óhapp verður.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×