Bernie Ecclestone, alráður í Formúlu 1, hefur sagt við breska götublaðið The Sun að Lewis Hamilton hafi frekar viljað hætta í Formúlu 1 en að aka eitt ár í viðbót fyrir McLaren. Hann hafi verið orðinn svo þreyttur á liðinu.
Hamilton skrifaði undir samning hjá Mercedes síðasta haust og yfirgaf um leið McLaren-liðið sem hann hafði ekið fyrir í 13 ár, þar af síðustu sex ár í Formúlu 1. Hamilton var tíður gestur í húsakynnum Ecclestone síðasta sumar en alráðurinn segir hann hafa treyst sér fyrir áhyggjum sínum af framtíðinni.
„Lewis sagði mér að hann hefði frekar viljað taka sér eitt ár í frí heldur en að aka fyrir McLaren. Ég veit ekki af hverju það fór svoleiðis," segir Ecclestone. „Hamilton fór ekki fyrir peningana. Ég veit svosem ekkert hvers vegna hann fór en það var ekki út af peningum."
„Hann vildi bara breytinguna held ég. Kannski fannst honum hann hafa verið nógu lengi hjá McLaren og vildi halda sína leið."
Formúla 1