Körfubolti

Drekarnir aftur í forystu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hlynur Bæringsson, leikmaður Sundsvall.
Hlynur Bæringsson, leikmaður Sundsvall. Mynd/Valli
Sundsvall Dragons er komið með forystu gegn Norrköping Dolphins, 2-1, í undanúrslitaslag liðanna í úrslitakeppni sænsku úrvalsdeildarinnar í körfubolta.

Sundsvall vann í kvöld þriggja stiga sigur á heimavelli, 79-76. Staðan í hálfleik var 42-37, Sundsvall í vil. Allir leikirnir í rimmunni hafa unnist á heimavelli til þessa.

Jakob Sigurðarson skoraði mikilvæga körfu fyrir Sundsvall þegar tæp mínúta var til leiksloka og kom sínum mönnum yfir, 75-70.

Leikurinn kláraðist svo á vítalínunni en Hlynur Bæringsson tók mikilvægt frákast á lokasekúndum leiksins. Það var svo brotið á honum en Hlynur kláraði sitt og setti niður bæði vítaskotin.

Norrköping hafði svo tvær sekúndur í lokasókn leiksins til að jafna metin en það var ekki nóg.

Jakob var stigahæstur í liði Sundsvall með nítján stig auk þess sem hann gaf sjö stoðsendingar. Hlynur var með fjórtán stig og ellefu fráköst.

Pavel Ermolinskij skoraði tvö stig fyrir Norrköping en hann tók fjögur fráköst og gaf fjórar stoðsendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×