„Það er bersýnilegt að það er á brattan að sækja fyrir okkur," segir Árni Þór Sigurðsson þingmaður Vinstri grænna um nýja skoðanakönnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2 á fylgi stjórnmálaflokkanna. VG mælist með 5,6 prósenta fylgi, en það er hættulega nærri fimm prósenta markinu sem flokkar þurfa að ná til að koma mönnum á þing.
„Kosningabaráttan er í sjálfu sér bara rétt að byrja og við erum að sjálfsögðu reiðubúin í hana og hvergi bangin."
Athygli vekur að VG mælast með sama fylgi og flokkur Pírata, sem bjóða fram í fyrsta sinn og eru annað tveggja nýrra framboða sem nær þingmönnum inn samkvæmt könnuninni.
„Já við höfum fundið að Píratar eru að sækja svolítið í hefðbundið vinstra fylgi og þetta er því spurning um að leggja áherslu á okkar sérstöðu í stjórnmálum, umhverfismálin, kvenfrelsismálin og jöfnuðinn. Að því leyti finnst okkur framboð eins og Píratar takmörkuð, þar sem þau horfa á einstök mál en ekki heildina í stjórnmálum."
Árni Þór segir sterka stöðu Framsóknarflokksins umhugsunarverða, en að hann taki henni með vissum fyrirvara.
„Fylgið er enn á mikilli ferð og maður spyr sig hvort þetta sé fullkomlega marktækt. Þetta virkar ansi mikið stökk upp á við sem eru nú kannski ekki mörg fordæmi fyrir. En svona kannanir geta vissulega gefið vísbendingar um hver þróunin er og það ber að taka alvarlega."
Þór Þorl.
Valur