Felipe Massa á Ferrari var fljótastur á seinni æfingunni fyrir kínverska kappaksturinn sem fram fór í morgun. Liðsfélagi hans hjá Ferrari, Fernando Alonso, varð þriðji en Kimi Raikkönen skildi þá að í öðru sæti.
Kappaksturinn fer fram í Sjanghæ í Kína á sunnudagsmorguninn. Enn er skrifað um rifrildi heimsmeistarans Sebastian Vettel og liðsfélaga hans Mark Webber hjá Red Bull-liðinu, eftir dramatíkina fyrir þremur vikum í Malasíu.
Þeir félagar hjá Red Bull náðu ekkert sérstökum árangri á seinni æfingunni: Mark Webber náði fimmta besta tíma og Vettel tíunda. Dekkin hafa verið að hrjá Red Bull-liðið mest toppliðanna ef McLaren er undanskilið.
Nico Rosberg á Mercedes vann kappaksturinn í fyrra en hann varð fjórði á seinni æfingunni í dag eftir að hafa verið fljótastur á þeirri fyrri þegar brautin var enn skítug og óekin. Lewis Hamilton, liðsfélagi Rosberg, varð sjöundi á eftir fyrrum liðsfélaga sínum, Jenson Button á McLaren.
Það þótti sæta tíðindum að Massa var langfljótastur umhverfis brautina þegar líða tók á æfinguna og liðin fóru að undirbúa sig undir kappaksturinn og safna gögnum fyrir keppnina. Massa verður því að öllum líkindum í baráttu um verðlaunasæti í Kína og getur vel unnið ef Red Bull-menn taka sig ekki saman í andlitinu.
Tímatakan er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport í fyrramálið klukkan 6. Kappaksturinn verður svo ræstur á sunnudagsmorgun klukkan 7 en útsending hefst hálftíma fyrr.
Formúla 1