Innlent

Opið í Bláfjöllum þrátt fyrir mengunarslys

Það er opið í Bláfjöllum og hreinsunarstarf vegna olíuleka á vatnsverndarsvæðinu skiptir þar engu máli að sögn rekstrarstjóra Bláfjalla, Einars Bjarnasonar. Eins og Vísir greindi frá fyrr í dag helltust um 600 lítrar af olíu niður á plani skammt frá Bláfjallaskála.

Bláfjöll opna klukkan fimm í dag og er opið til klukkan tíu í kvöld. Á vefsíðu Bláfjalla segir að búið sé að reisa hrikalegustu palla sem sést hafa. Svo segir orðrétt:

„Parkið hannað af Hreini Heiðari, nýkrýndum AK extreme meistara og troðarasnillingnum Vigni park. Pallar af öllum stærðum og mun DJ Emmsjé Gauti sjá um skífuþeytingar frá kl.19. Veitingar í boði Mountain Dew. Opið verður að sjálfsögðu fyrir bæði skíða og brettfólk, Kóngurinn, barnalyftur við skálann, kaðallinn og töfrateppið verður opið. Skíðaleigan verður opin, en lágmarks þjónusta verður í veitingasalnum, kaffi, kakó og eitthvað smávegis í viðbót. Allir að koma með nesti og njóta kvöldsins. Vetrakortin munu gilda. Einnig verður opið á morgun frá kl. 10-17, ef veður leyfir. Flott spá er fyrir daginn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×