Viðskipti innlent

Töldu öll Deloitte hafa vottað viðskiptin

Stígur Helgason skrifar
Fyrri degi aðalmeðferðar í Exista-máli sérstaks saksóknara er nú lokið. Vitnaleiðslum verður fram haldið í fyrramálið og að því loknu tekur málflutningur saksóknara og verjenda við.

Undir lok dags komu nokkrir fyrrverandi starfsmenn og stjórnarmenn Existu fyrir dóminn og báru vitni, auk starfsmanna lögmannsstofunnar Logos. Meðal þeirra var Bogi Pálsson, fyrrverandi stjórnarmaður í Existu, sem gaf símaskýrslu frá Colorado í Bandaríkjunum.

Í málinu eru Lýður Guðmundsson, fyrrverandi stjórnarformaður Existu, og Bjarnfreður Ólafsson, lögmaður á Logos, ákærðir fyrir brot á hlutafélagalögum.

Málið snýst um fimmtíu milljarða hlutafjáraukningu Exista í desember 2008, sem aðeins var greitt fyrir með einum milljarði króna. Hann var fenginn að láni frá Lýsingu, dótturfélagi Existu. Nokkuð hefur verið tekist á um skýrslu sem endurskoðunarfyrirtækið Deloitte vann um hlutafjáraukninguna, og hvort hún var svokölluð sérfræðiskýrsla í skilningi hlutafélagalaga eða ekki. Endurskoðendurnir segja að svo hafi ekki verið, enda hafi þeir alls ekki getað lagt blessun sína yfir hlutafjáraukningu á þessu formi.

Exista- og Logos-fólkið var sammála um að hafa allt álitið skýrsluna sérfræðiskýrslu í lagalegum skilningi. Í máli starfsmanna Logos var það sjónarmið áréttað sem Bjarnfreður lýsti í morgun að verulegra efasemda hefði gætt innan lögmannsstofunnar um að leið Exista-manna væri fær. Það hafi því komið nokkuð á óvart þegar skýrslan hafi borist frá Deloitte.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×