Innlent

Ögmundur breytir reglum um jarðarkaup útlendinga

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra.
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra. Mynd/ Ernir.
Héðan í frá er erlendum aðila með lögheimili á evrópska efnahagssvæðinu óheimilt að kaupa jörð hér á landi nema kaupin séu sannarlega liður í því að hann nýti rétt sinn til að hafa hér á landi lögmæta dvöl eða starfsemi. Þetta felst í reglugerð sem Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra undirritaði þann 17. apríl síðastliðinn um kaup útlendinga með lögheimili á evrópska efnahagssvæðinu á fasteignum hér á landi. Ráðherra segir að reglugerðin sé sett með stoð í lögum um eignarrétt og afnotarétt fasteigna nr. 19/1966 og hefur hún þegar öðlast gildi.

„Með reglugerðinni er skýrt mælt fyrir um það að rétturinn til frjálsra fjármagnsflutninga sé ekki sjálfstæður réttur heldur einungis liður í í því að EES aðilar geti öðlast fasteignaréttindi hér á landi í tengslum við hina þrjá þætti fjórfrelsisins, þ.e. frjálsa för fólks, staðfesturétt og þjónustustarfsemi. Það þýðir að erlendum aðila með lögheimili á evrópska efnahagssvæðinu er óheimilt að kaupa land nema kaupin séu sannanlega liður í því að hann nýti rétt sinn til að hafa hér á landi lögmæta dvöl eða starfsemi. Takmarkanir eru því gerðar á rétti EES ríkisborgara sem ekki er búsettur hér á landi til að eignast fasteign sem væri honum ekki nauðsynleg vegna atvinnustarfsemi hans eða til að halda þar heimili. Þetta á einnig við um lögaðila á evrópska efnahagssvæðinu,“ segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.

Reglugerðin varðar eingöngu fasteignaréttindi EES borgara og því þurfa fasteignakaup annarra útlendinga áfram heimild ráðherra samkvæmt lögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×