Innlent

Skoðað hvort Landsvirkjun útvegi orku til Helguvíkur

Kristján Már Unnarsson skrifar

Skoðað verður hvort Landsvirkjun geti útvegað raforku til álversins í Helguvík, ef orkan fæst ekki annars staðar frá, segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, sem telur uppbygginguna afar mikilvæga, bæði fyrir Suðurnes og landið í heild. 

Sem fjármálaráðherra fer Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, með málefni Landsvirkjunar og hann kýs alla stjórn fyrirtækisins. Í Helguvík er búið að smíða grind utan um álver en framkvæmdir liggja niðri, meðal annars vegna þess að ekki hafa náðst samningar milli orkufyrirtækja og Norðuráls um raforkukaup. En kemur til greina að ríkið beiti eignarhaldi sínu í Landsvirkjun til að greiða fyrir þessu verkefni?

„Það skiptir miklu að það sé jákvætt viðhorf í garð þessara framkvæmda," svarar Bjarni.

„Það er samstaða milli flokkanna um það að styðja eins og hægt er uppbyggingu álversins í Helguvík. Ef það er niðurstaðan að það tekst ekki að ná samningum um orkuöflun til verkefnisins þá munum við skoða það hvort einhverjir aðrir, eins og til dæmis Landsvirkjun, gætu stigið inn í þessa mynd vegna þess að uppbyggingin sem slík er svo mikilvæg fyrir svæðið og verkefni fyrir landið í heild." 

-Þannig að það kæmi til greina að gefa stjórn Landsvirkjunar hreinlega fyrirnæli um það að styðja við þetta verkefni?

„Það verða engin skref stigin sem eru út fyrir faglega rammann sem Landsvirkjun á að starfa eftir. En mér finnst sjálfsagt að láta á það reyna hvort menn geti náð saman um að afla orku í verkefnið, ef að þeir sem hafa verið í þeim viðræðum eru ekki að ná saman," segir Bjarni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×