Innlent

Vill skoða allar hugmyndir

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
mynd úr safni

„Það er margt gott í þessari fjárfestingaáætlun og því besta munum við fylgja eftir,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sem nú situr fyrir svörum í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni.

„Ég talaði um stöðu ríkissjóðs rétt eftir kosningar og forsendurnar fyrir þessari fjárfestingaáætlun eru ekki til staðar eins og sakir standa, en hins vegar er hægt að breyta þeim býsna hratt.“

Sigmundur talaði um stofnun leiðréttingarsjóðs sem Hægri grænir töluðu um í aðdraganda kosninganna og honum þykir hugmyndin ágæt.

„Við höfum verið að skoða aðrar útfærslur. Ríkisstjórnin verður að vera reiðubúin til að skoða allar hugmyndir, sama hvaðan þær koma. Það hefur reynst mér vel frá því ég byrjaði í pólitík að leita til þeirra sem best þekkja til á hverju sviði hvort sem þeir eru innan flokksins eða utan hans. Því mun ég halda áfram fyrir hönd ríkisstjórnarinnar.“

Sigmundur segir nauðsynlegt að ná tökum á ríkisrekstrinum og verðbólgunni, og bætir því við að líklega sé afnám hafta stærsta úrlausnarefnið.

„Það er allra hagur að búa til þær aðstæður að hægt sé að afnema höftin. Og þegar allir eru með sameiginlega hagsmuni er það auðveldara.“

Fyrsta hluta viðtalsins við Sigmund má heyra í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×