Körfubolti

Frábær fjórði leikhluti og San Antonio tók forystuna

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Tony Parker rennur til á gólfinu í lokasókn San Antonio Spurs. Sá franski hélt sér á fótunum og skoraði skömmu síður lokakörfuna.
Tony Parker rennur til á gólfinu í lokasókn San Antonio Spurs. Sá franski hélt sér á fótunum og skoraði skömmu síður lokakörfuna. Nordicphotos/AFP

Tony Parker var hetja San Antonio Spurs þegar liðið lagði Miami Heat 92-88 í fyrsta leik liðanna í úrslitaeinvígi NBA í nótt.

Leikið var á heimavelli meistaranna í Miami sem náðu bestum árangri allra liða í deildinni í vetur. Heimamenn höfðu frumkvæðið fram í lokaleikhlutann en gestirnir voru aldrei langt undan.

Miami leiddi 72-69 að loknum þriðja leikhluta en í þeim fjórða stigu leikmenn gestaliðsins fram. San Antonio loks yfir 79-78 og eftir það voru það leikmenn Miami sem voru í því hlutverki að elta.

Munurinn var tvö stig, 90-88, þegar San Antonio fór í sína síðustu sókn. Tony Parker, leikstjórnandi San Antonio, hélt boltanum undir mikilli pressu LeBron James og setti niður tvö stig í þann mund er skotklukkan glumdi. Þá lifðu aðeins fimm sekúndur leiks og ekki nægur tími fyrir Miami að jafna.



Tony Parker og Tim Duncan fagna sigri í Miami í nótt.Nordicphotos/AFP

Frábær frammistaða í fjórða leikhluta landaði útisigri San Antonio sem skoraði 23 stig gegn 16 í fjórðungnum.

„Við vorum mjög heppnir. Það leit út fyrir að hann hefði tapað boltanum tvisvar eða þrisvar en hann hélt honum," sagði Gregg Popovich, þjálfari San Antonio, um lokasókn San Antonio Spurs. Á einum tímapunkti virtist Parker sitja á gólfinu, svo mikil var pressan, en hann stóð upp og skoraði lokastigin mikilvægu.

Frakkinn skoraði 21 stig auk þess að gefa 6 stoðsendingar. Miklu munaði um lágt framlag LeBron James við stigaskorun. LeBron skoraði aðeins 18 stig sem er hans lægsta stigaskor í úrslitakeppninni til þessa.

Að neðan má sjá helstu tilþrifin úr leiknum, þeirra á meðal lokakörfuna frá Tony Parker.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×