Sport

Sveinbjörg með góðan fyrri dag

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Silfrid.is
FH-ingurinn Sveinbjörg Zophaníasdóttir byrjar vel á EM landsliða í fjölþraut en hún er í öðru sæti í kvennaflokki eftir fyrri keppnisdaginn.

Hún er með 3271 stig eftir fyrstu fjórar greinarnar en það er betri árangur þegar hún náði sinni bestu þraut árið 2012. Þá var hún með 3215 stig eftir fyrri daginn og endaði í 5424 stigum.

Sveinbjörg náði frábærum árangri í hástökki en hún stökk 1,78 m sem er bæting upp á 8 cm í þraut. Hún var einnig nálægt sínu besta í 100 m grindahlaupi en hún hljóp á 14,98 sekúndum.

Hún kastaði kúlunni 12,38 m og kom í mark í 200 m hlaupi á 26,10 sekúndum.

Arna Stefánía Guðmundsdóttir, ÍR, endaði með 3165 stig eftir fyrri daginn og María Rún Gunnlaugsdóttir, Ármanni, með 3110 stig. Fjóla Signý Hannesdóttir, Selfossi, er með 3038 stig að loknum fyrri deginum.

Ingi Rúnar Kristinsson, Breiðabliki, er í tíunda sæti í flokki karla með 3501 stig eftir fyrri daginn í tugþrautinni. Krister Blær Jónsson, Breiðabliki, er með 3114 stig en Hermann Þór Haraldsson, FH, féll úr leik eftir að hafa gert þrívegis ógilt í langstökki.

Það er samanlagður árangur þriggja bestu þrautanna frá hverju landi sem gildir í stigakeppni landanna. Þrjú efstu liðin komst upp í 1. deild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×