Innlent

Bílferja yfir Arnarfjörð tengi Vestfirði saman

Kristján Már Unnarsson skrifar
Ferja yfir Arnarfjörð, sem sigldi nokkrum sinnum á dag milli Hrafnseyrar og Bíldudals, er skjótasta lausnin til að tengja saman atvinnusvæði norður- og suðurhluta Vestfjarða. Þetta er mat áhugamanna um ferju á sunnanverðum Vestfjörðum sem vilja að stjórnvöld skoði þennan kost.

Athafnamenn á Bíldudal varpa nú fram þessum möguleika inn í umræðuna en hugmyndin gengur út á það að væntanleg Dýrafjarðagöng verði grafin undir Hrafnseyrarheiði fremur en á móts við Mjólkárvirkjun í botni Arnarfjarðar. Ferðaþjónustumenn, eins og Jón Þórðarson, hvetja til ferju og fiskeldismenn, sem sjá fram á að þurfa mikið vinnuafl á næstu árum, kalla eftir stærra atvinnu- og þjónustusvæði.

Matthías Garðarsson, aðaleigandi Arnarlax á Bíldudal, segir í viðtali í fréttum Stöðvar 2 að menn þurfi að sjá Vestfirði verða eina heild sem allra fyrst. Bílferja ásamt göngum undir Hrafnseyrarheiði myndu stytta leiðina til Ísafjarðar.

Samgönguhindranir á miðhluta Vestfjarða gera það að verkum að vart er hægt að tala um einn landshluta en Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði teppa leiðina milli Ísafjarðar- og Patreksfjarðarsvæðis yfir vetrartímann. Dýrafjarðargöng leysa ekki ein vandann, Dynjandisheiði verður eftir og síðan tenging til Bíldudals.

Bílferja yfir Arnarfjörð er raunar ekki ný hugmynd, hreppsnefnd Tálknafjarðar ályktaði um hana fyrir áratug.

Matthías þekkir reyndar bílferjur vel eftir að hafa búið í Norður-Noregi í 35 ár. Hann segir fjölmörg samfélag þar þrífast vel með ferjusamgöngum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×