Innlent

Lögreglumaður leystur undan skyldum sínum

Valur Gettisson skrifar
Lögreglumaðurinn sem handtók konuna um helgina með harkalegum hætti hefur verið leystur undan skyldum sínum samkvæmt upplýsingum fréttastofu.

Málið hefur verið sent til ríkissaksóknara til rannsóknar auk þess sem settur umboðsmaður Alþingis hefur óskað eftir upplýsingum um atvikið.

Myndband náðist af handtökunni sem sýndi ofurölvi konu í miðborg Reykjavíkur. Hún stóð á miðjum Laugaveginum, sem nú hefur verið breytt að hluta í göngugötu, og lögreglan ók í áttina að henni.

Þegar konan var komin upp að hlið bílsins virtist hún hrækja á lögreglumanninn sem ók bifreiðinni. Sá virðist hafa snöggreiðst, en hann fór út úr bílnum, reif í konuna, sem skall á bekk, og þaðan í jörðina.

Því næst var hún handtekin og færð í lögreglubílinn.

Málið hefur vakið mikla reiði á meðal almennings. Ríkislögreglustjóri óskaði eftir því við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu að maðurinn yrði leystur undan skyldum sínum, og varð lögreglustjóri við því.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×