Innlent

Sjóðandi heitir Píratar vegna RÚV

Jakob Bjarnar skrifar
Pírötum, sem og öðrum þingmönnum, var heitt í hamsi í nótt vegna málefna RÚV.
Pírötum, sem og öðrum þingmönnum, var heitt í hamsi í nótt vegna málefna RÚV.
Frumvarp Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra um að Alþingi skipi beint fulltrúa í stjórn RÚV ohf hefur verið umdeilt. Í nótt var komið að afgreiðslu og var nokkur hiti í þingsal vegna málsins. Var málið lagt upp þannig að stjórnarliðar fengju fimm fulltrúa en stjórnarandstaðan fjóra. En, á tímabili leit út fyrir að stjórnarliðar fengju sex fulltrúa en stjórnarandstaðan þrjá.

Píratar sendu þá reiðir frá sér yfirlýsing, í nótt, þar sem talað er um hið andlýðræðislega frumvarp mennta- og menningarmálaráðherra. Þar segir meðal annars: „Nú skilja Píratar mætavel að óþægilegt geti verið að hafa Pétur Gunnarsson [rithöfund] og Láru Hönnu [Einarsdóttur bloggara] í, annars pólitískri stjórn RÚV. Þessi aðgerð er þó grímulausari en nokkrum gat dottið í hug og þingflokkurinn fordæmir þessi klækjabrögð. Í gær var látið að því liggja að það væri til betrumbóta á frumvarpinu, að fjölga í stjórninni og gera hana þverpólitískari. Hið sanna hefur hins vegar komið í ljós. Stjórnin fær þó plús í kladdann fyrir grímuleysið. Pólitísk klækjabrögð um stjórn RÚV njóta þá allavega gagnsæis.“

Að endingu fór það svo, í atkvæðagreiðslu, að fulltrúar minnihlutans eru fjórir og stjórnarliða fimm. Var þá Pírötum létt og sendu frá sér aðra yfirlýsingu þar sem segir meðal annars:

„Þau óvæntu og gleðilegu tíðindi urðu í leynilegri atkvæðagreiðslu um stjórn RÚV að atkvæðin féllu með lýðræðinu. Píratar þakka þeim hugrakka stjórnarþingmanni sem greiddi atkvæði með lýðræðinu og tryggði að þessi nýja stjórn væri ekki með óeðlilega hátt hlutfall fulltrúa ríkisstjórnarinnar.”

Þeir sem kosnir voru aðalmenn í stjórn RÚV eru Guðrún Nordal, Magnús Stefánsson, Magnús Geir Þórðarson, ÚIfhildur Rögnvaldsdóttir, Ingvi Hrafn Óskarsson, Margrét Frímannsdóttir, Björg Eva Erlendsdóttir, Sigurður Björn Blöndal og Pétur Gunnarsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×