Hjálmar Jónsson og Hjörtur Logi Valgarðsson stóðu vaktina í vörn IFK Gautaborgar sem tapaði 2-1 gegn botnliði Brommapojkarna í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.
Gautaborgarliðið sat í efsta sæti deildarinnar ásamt Malmö fyrir leikinn en nýliðar Brommapojkarna voru í neðsta sæti deildarinnar.
Heimamenn skoruðu tvívegis á fyrstu 24 mínútum leiksins og leiddu 2-0 í hálfleik. Gestirnir minnkuðu muninn í síðari hálfleik en lengra komust þeir ekki. 2-1 sigur litla liðsins frá Stokkhólmi staðreynd.
Jón Daði Böðvarsson kom inn á sem varamaður hjá Viking í 1-1 jafntefli á útivelli gegn Noregsmeisturum Molde. Indriði Sigurðsson var ekki í leikmannahópi Viking sem situr í 5. sæti deildarinnar.
Nú eigast við Start og Brann þar sem Guðmundur Kristjánsson er í byrjunarliði heimamanna og Birkir Már Sævarsson byrjar hjá gestunum. Start leiðir eftir átta mínútna leik en Matthías Vilhjálmsson er á varamannabekk heimamanna sem eru í fallsæti.
Fótbolti