Sport

Risabæting Arnars Helga í Lyon

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Arnar Helgi er lengst til vinstri á myndinni í grænum stól.
Arnar Helgi er lengst til vinstri á myndinni í grænum stól. Mynd/ÍF
Arnar Helgi Lárusson bætti Íslandsmet sitt í 200 metra hjólastólakappakstri um heilar 4,02 sekúndur á HM í frjálsum íþróttum fatlaðra í Lyon í Frakklandi í dag.

Arnar Helgi kom í mark á tímanum 34,68 sekúndum en Íslandsmet hans frá því fyrr í sumar var 38,70 sekúndur. Ótrúleg bæting á skömmum tíma hjá Arnari Helga en tíminn dugði honum þó ekki til þess að komast í úrslit. Brent Lakatos frá Kanada átti bestan tíma í undanúrslitum en hann kom í mark á 26 sekúndum.

Arnar Helgi er eini Íslendingurinn sem stundar keppni í greininni. Hann sagði í viðtali við Fréttablaðið í vetur að hann ætlaði sér sæti á Ólympíumótinu í Ríó árið 2016. Hann hefur æft baki brotnu undanfarna mánuði og nálgast þá bestu hægt og bítandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×