Fótbolti

Öruggur sigur hjá Avaldsnes

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þórunn Helga Jónsdóttir, lengst til vinstri, spilaði vel í dag.
Þórunn Helga Jónsdóttir, lengst til vinstri, spilaði vel í dag. Mynd/Arnþór
Þrjár íslenskar landsliðskonur voru í byrjunarliði Avaldsnes í dag þegar liðið vann öruggan 3-0 heimasigur á Medkila í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta. Öll þrjú mörkin komu í fyrri hálfleiknum.

Guðbjörg Gunnarsdóttir, fyrirliði Avaldsnes, hélt marki sínu hreinu og spilaði allan leikinn eins og Þórunn Helga Jónsdóttir á miðju liðsins. Hólmfríður Magnúsdóttir var í framlínunni fyrstu 74 mínútur leiksins. Mist Edvardsdóttir sat á bekknum allan tímann.

Þórunn Helga Jónsdóttir spilaði mjög vel á miðju Avaldsnes og var besti leikmaðurinn ásamt norska framherjanum Cecilie Pedersen. Öll þrjú mörkin komu á fyrsta hálftíma leiksins. Cecilie Pedersen skoraði tvö þau fyrstu og það þriðja var síðan sjálfsmark.

Þetta er annar deildarsigur Avaldsnes í röð og Guðbjörg er búin að halda marki sínu hreinu í þeim báðum. Avaldsnes-liðið er í 5. sæti deildarinnar með 20 stig í 14 leikjum en liðið fékk góðan liðstyrk í EM-fríinu og nálgast bestu lið deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×