Aktobe frá Kasakstan sem sló Breiðablik út úr Evrópudeildinni fyrr í sumar komst ekki áfram í riðlakeppni Evrópudeildarinnar. Aktobe steinlá nefnilega 5-1 á móti Dynamo Kiev í Úkraínu í kvöld og tapaði því samanlagt 8-3.
Dynamo Kiev vann fyrri leikinn í Kasaktsan 3-2 en gerði út um einvígið með því að skora þrjú mörk á fyrstu 36 mínútum leiksins í kvöld.
Norsku meistararnir í Molde eru líka úr leik eftir 3-0 tap á móti Rubin Kazan en rússneska liðið vann fyrri leikinn 2-0 í Noregi og því 5-0 samanlagt.
Svissneska liðið St Gallen kom mörgum á óvart með því að slá út Spartak Moskva en Svisslendingarnir unnu seinni leikinn í Rússlandi í dag 4-2 og þar með 5-3 samanlagt.
Sænska liðið Elfsborg sló úr danska liðið Nordsjælland me því að vinna 1-0 í Svíþjóð í dag en fyrri leikurinn endaði með 1-1 jafntefli. Nordsjælland komst í Meistaradeildina í fyrra.
Þýska liðið Stuttgart er úr leik eftir 2-2 jafntefli á heimavelli á móti Rijeka frá Króatíu en Króatarnir unnu fyrri leikinn 2-1 og því samanlagt 4-3. Goran Mujanovic skoraði jöfnunarmarkið á fjórðu mínútu í uppbótartíma og tryggði Rijeka með því sæti í riðlakeppninni.
Fótbolti