Innlent

Lyfið er ekki lengur til hér á landi

Svavar Hávarðsson skrifar
Tugþúsundir Íslendinga voru bólusettir með Pandemrix gegn svínaflensu. fréttablaðið/vilhelm
Tugþúsundir Íslendinga voru bólusettir með Pandemrix gegn svínaflensu. fréttablaðið/vilhelm
Rannsókn í Englandi hefur leitt í ljós marktækt samband á milli bólusetningar gegn svínainflúensu með bóluefninu Pandemrix og drómasýki [taugasjúkdómur sem veldur svefntruflunum] hjá börnum og unglingum.

Frá þessu var greint í vísindatímaritinu British Medical Journal á dögunum, að því segir í frétt frá Landlæknisembættinu. Áður hafa birst niðurstöður um marktækt samband í þessum aldurshópum í Finnlandi og Svíþjóð en ekki í öðrum löndum.

Á Íslandi hefur ekki sést marktækt samband á milli bólusetningar með Pandemrix og drómasýki.

Spurður um afstöðu til bólusetninga með lyfinu Pandemrix segir Haraldur Briem sóttvarnalæknir að hún sé óbreytt enn sem komið er. „Við fylgjum tilmælum Lyfjastofnunar ESB þess efnis að Pandemrix-bóluefnið sé ekki notað hjá ungu fólki gegn svínainflúensu nema að alvarlegur faraldur ríði yfir og annað bóluefni sé ekki fáanlegt. Það þarf að fara fram áhættumat," segir Haraldur.

Bóluefnið Pandemrix er ekki lengur til hér á landi. Það bóluefni sem nú er notað gegn svínainflúensu og öðrum stofnum inflúensu er af annarri gerð og hefur ekki verið bendlað við drómasýki, að sögn Haraldar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×