Innlent

Fólki fjölgar á Grenivík og gróska í húsasmíði

Kristján Már Unnarsson skrifar
Óvenju mikið er nú byggt á Grenivík en þar hefur íbúum fjölgað um tíu prósent á síðustu tveimur árum og biðlisti er eftir leiguhúsnæði. Grenivík er utarlega við austanverðan Eyjafjörð, en ólíkt flestum sjávarþorpum á landinu, þá hafa ný íbúðarhús risið á undanförnum árum og fyrirtæki stækkað við sig.

Og enn heyrast hamarshögginn, það er verið að reisa parhús. Guðný Sverrisdóttir, sveitarstjóri Grýtubakkahrepps, lýsti þessum framkvæmdum í viðtali í fréttum Stöðvar 2 en verið er að byggja við lyfjafyrirtæki og harðfiskverkun og eitt parhús er í smíðum, sem verður annaðhvort selt eða leigt.

Það er byggingarfélag á vegum heimamanna, Trégrip, sem byggir parhúsið fyrir sveitarfélagið. Í húsinu verða tvær 105 fermetra íbúðir og er áætlað að hvor þeirra muni kosta um 26 milljónir króna. Guðný segir sveitarfélagið neyðast til að byggja leiguhúsnæði því fólk veigri sér við að byggja sjálft á stöðum þar sem markaðsverð eigna sé undir byggingarkostnaði.

Frá Grenivík.Myndir/Baldur Hrafnkell Jónsson.
Guðný segir að íbúum hafi fjölgað á síðustu tveimur árum úr 334 og upp í 370 manns og þakkar það blómlegu atvinnulifi. Byggðarlagið búi að miklum fiskveiðikvóta og enginn sé á atvinnuleysisskrá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×