Innlent

Blása í herlúðra gegn lúsinni

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Hjúkrunarfræðinemar ætla að kemba börn og starfsfólk.
Hjúkrunarfræðinemar ætla að kemba börn og starfsfólk. Mynd/samsett mynd
Eins og öll börnin sem byrjuð eru í skólanum að nýju á hausti er lúsin mætt á svæðið. Síðasta vetur var háð mikil barátta við lúsina og þá sérstaklega í Vesturbæjarskóla.

„Síðasta vetur háðum við mikla baráttu. Við reyndum að losa okkur við lúsina úr hári barnanna okkar. Allir voru orðnir langþreyttir á fréttum af lúsinni sem dúkkaði alltaf upp aftur, ódrepandi að því virtist,“ segir í bréfi frá Döllu Jóhannsdóttur, formanni foreldrafélags Vesturbæjarskóla. „En nú blásum við í herlúðra og ráðumst til atlögu í byrjun skólaárs.“

Dalla segir í samtali við Vísis að starfsfólk og börn verði kembd tvisvar sinnum með mánaðar millibili.

„Nemar á þriðja ári í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands munu koma og sjá um að kemba. Ef það finnst lús þá hringjum við í foreldra. Svo hringjum við aftur og athugum hvernig baráttan gangi. Einnig látum við frístundaheimili og leikskóla í hverfinu vita af þessu átaki og vonumst til að allir taki þátt,“ segir Dalla.

Fleiri skólar berjast við lúsina þessa dagana og eru allir foreldrar hvattir til að kemba börnin. Samkvæmt sóttvarnasviði Landlæknis hafa lúsatilfelli fimmfaldast á einu ári. Höfuðlús er afar smitandi en lúsin getur leynst í hárinu í margar vikur án þess að kláði komi fram. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu embætti landlæknis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×