Erlent

Japanska ríkið fjármagnar ísvegg við Fukushima

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Kjarnorkuverið í Fukushima. Aftarlega á myndinni sjást geymslutankarnir, sem sumir leka.
Kjarnorkuverið í Fukushima. Aftarlega á myndinni sjást geymslutankarnir, sem sumir leka. Mynd/AP
Japönsk stjórnvöld tilkynntu í morgun að þau muni verja 470 milljörðum króna til að reisa eins konar ísmúr neðanjarðar milli kjarnorkuversins í Fukushima og hafsins, til að koma í veg fyrir að geislamengað vatn geti lekið út í sjó.

„Í staðinn fyrir að láta TEPCO þetta eftir, þá grípur stjórnin nú inn í og tekur málið í sínar hendur,” sagði Shinzo Abe forsætisráðherra á blaðamannafundi.

„Umheimurinn fylgist með því hvort okkur tekst almennilega til við að halda mengaða vatninu í skefjum, en líka hvernig tekst til við að loka öllu kjarnorkuverinu endanlega,” segir Abe.

TEPCO er orkufyrirtækið sem rekur kjarnorkuverið í Fukushima, en verið eyðilagðist í náttúruhamförunum í mars árið 2011. 

Mikið magn af geislamenguðu vatni hefur safnast fyrir í verinu og jarðveginum í kring, bæði frá því vatni var dælt á verið til að kæla það niður og einnig vegna þess að grunnvatn heldur áfram að streyma til versins og áfram í átt til hafs.

Meira en þúsund geymslutankar hafa verið reistir við verið til að halda vatninu í skefjum, en á hverjum degi bætast um 400 tonn af vatni við.

Sumir þessara tanka hafa lekið, en ríkið hefur engin áform um að hjálpa TEPCO við að reisa fleiri tanka eða tryggja öryggi þeirra betur.

Ísmúr af því tagi, sem ríkið ætlar nú að reisa neðanjarðar, hefur verið notaður í nokkur ár í Bandaríkjunum til að einangra kjarnorkuúrgang frá Oak Ridge tilraunastöðinni í Texas, en þar var um hríð framleitt plúton.

Ýmsir sérfræðingar hafa efasemdir um þessa tækni og benda meðal annars á að rekstrarkostnaður verði hár og íþyngjandi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×