Sport

Federer óvænt úr leik á opna bandaríska

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roger Federer gat ekki leynt vonbrigðum sínum.
Roger Federer gat ekki leynt vonbrigðum sínum. Mynd/NordicPhotos/Getty
Svisslendingurinn Roger Federer vinnur ekki opna bandaríska meistaramótið í tennis í sjötta sinn í ár því hann er úr leik eftir óvænt tap á móti Spánverjanum Tommy Robredo í nótt. Tommy Robredo var í 19. sæti á styrkleikalista mótsins en Federer var sjöundi.

Tommy Robredo vann leikinn 7-6 (7-3), 6-3, 6-4 og er því kominn alla leið í átta manna úrslit mótsins. Roger Federer komst þar með ekki í átta manna úrslitin og var að vonum svekktur eftir leikinn.

„Mér líður næstum því eins og ég hafi slegið sjálfan mig út en ég vil samt ekki taka neitt frá Tommy. Það var undir mér komið að klára þetta en þetta gekk ekki hjá mér. Ég eyðilagði fyrir sjálfum mér," sagði Roger Federer.

Spánverjinn Rafael Nadal lenti í smá vandræðum í byrjun á móti Þjóðverjanum Philipp Kohlschreiber, en vann að lokum 6-7 (4-7), 6-4, 6-3, 6-1. Nadal mætir síðan Tommy Robredo í átta manna úrslitunum.

Frakkinn Richard Gasquet og Spánverjinn David Ferrer eru einnig komnir áfram í átta manna úrslitin á opna bandaríska mótinu sem er einn af hápunktum tennistímabilsins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×