Innlent

Siggi Hallvarðs safnaði 8 milljónum fyrir Ljósið

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Siggi Hallvarðs afhenti Ljósinu átta milljónir króna úr áheitagöngu sinni.
Siggi Hallvarðs afhenti Ljósinu átta milljónir króna úr áheitagöngu sinni. Myndir/Ljósið
Fjölmenni kom saman í Ljósinu í dag þegar gamla fótboltakempan Sigurður Hallvarðsson, Siggi Hallvarðs, afhenti Ljósinu ávísinu upp á 8 milljónum króna. Siggi Hallvarðs hélt áheitagöngu fyrir skömmu þegar hann gekk frá Hveragerði til Reykjavíkur og að Ljósinu sem er staðsett Langholtsvegi. Alls safnaði Siggi um 8 milljónum króna. Skeljungur styrkti gönguna myndarlega en hlutur þeirra var upp á 1,4 milljónir króna.

Sigurður greindist með heilaæxli fyrir tæpum 10 árum og hefur notið stuðnings og endurhæfingar í Ljósinu. Hann hefur farið í fjölda aðgerða til að fá fá meina sinna bót. Í maí síðastliðnum kom í ljós að fjöldi meina hafði tekið sér bólfestu í heila Sigurðs sem í kjölfarið afþakkaði geisla- og lyfjameðferð.

„Ljósið hefur gert margt og mikið fyrir mig og í það fyrsta hefur það verið staður þar sem ég get alltaf litið við og alltaf einhver sem vill tala við mig. Það er visst öryggi að hafa festu í lífinu og það hefur Ljósið verið fyrir mig og marga marga aðra. Ég vil á einhvern hátt fá að endurgjalda Ljósinu þakklæti mitt og gera það sem í mínu valdi stendur til að starfsemin þar fái að ganga áfram og fleiri fái að njóta stuðningsins sem þau þarna öll bjóða upp á,“ sagði Sigurður.

Ljósið afhenti Sigurði verndarkross fyrir framtakið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×