Fótbolti

Að halda HM í Katar var mögulega mistök

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sepp Blatter tilkynnir að HM árið 2022 fari fram í Katar.
Sepp Blatter tilkynnir að HM árið 2022 fari fram í Katar. Nordicphotos/Getty
Sepp Blatter, forseti Alþjóðaknattspyrnusambandsins, hefur í fyrsta sinn viðurkennt að það hafi mögulega verið mistök að veita Katar HM í knattspyrnu árið 2022.

Sú ákvörðun að halda keppnina í Austurlöndum hefur verið nokkuð harðlega gagnrýnd og þá aðallega í Evrópu. Þannig er 50 stiga hiti yfir sumartímann í Katar og hefur Blatter þegar sagt illmögulegt að halda keppnina á þeim tíma.

Rætt hefur verið um að halda keppnina yfir veturinn. Þeirri tillögu hefur sömuleiðis verið mætt af mikilli gagnrýni í Evrópu enda myndi HM yfir vetrartímann setja deildirnar í Evrópu úr skorðum.

„Það má vel vera að það hafi verið mistök á þeim tíma,“ sagði Blatter við vefmiðilinn insideworldfootball.com. „Það verður hins vegar að hafa í huga pólitískan veruleika.“

Bendir Blatter á að HM sé stærsti viðburður FIFA og mögulega alls heimsins.

„Hvaða rétt höfum við Evrópubúar að krefjast þess að viðburðurinn þurfi fyrst og fremst að þjóna hagsmunum 800 milljóna íbúa álfunnar?“ sagði Blatter. Hann segir Evrópubúa þurfa að átta sig á því að Evrópa drottni ekki yfir heiminum líkt og áður. Fótbolti sé ekki aðeins evrópsk og suður-amerísk íþrótt heldur íþrótt allra jarðarbúa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×