Sport

Þol íslenskra landsliðskvenna til umræðu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá leiknum á Laugardalsvelli í gærkvöldi.
Frá leiknum á Laugardalsvelli í gærkvöldi. Mynd/Daníel
Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu tapaði 2-0 gegn Svisslendingum á Laugardalsvelli í gærkvöldi. Stelpurnar okkar verða meðal umræðuefna á Menntakviku Háskóla Íslands í dag.

Sigurður Ragnar Eyjólfsson, fyrrverandi þjálfari kvennalandsliðsins í knattspyrnu, fjallar um sérhæft knattspyrnuþol A-landsliðskvenna á Íslandi auk leikmanna í yngri landsliðum kvenna. Aðalsteinn Sverrisson, meistaranemi, og Janus Guðlaugsson, lektor og fyrrverandi landsliðsmaður í knattspyrnu, flytja einnig erindi um málið.

Erindið er hluti af málstofunni „Íþróttir, heilsa og lífsstíll“ sem hefst í stofu H-205 í húsnæði Menntavísindasviðs í Stakkahlíð klukkan 13. Þar verður einnig til umræðu þrek og hreyfing sjómanna og jöfn tækifæri fólks til heilsueflingar.

Klukkan 15 á sama stað hefst málstofa um þroskahömlur og heilsufar. Meðal fyrirlesara eru Sigurbjörn Árni Arngrímsson, prófessor við Menntavísindasvið og frjálsíþróttasérfræðingur og Ingi Þór Einarsson, aðjúnkt og doktorsnemi við Menntavísindasvið og landsliðsþjálfari fatlaðra í sundi.

Fjölmargir viðburðir verða í húsnæði Menntavísindsviðs og snúa margir að íþróttum. Lengd kynninga er stillt í hóf, úr nógu er að velja og allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt æfi.

Hægt er að kynna sér dagskrána í þaula hér að neðan. Fyrrnefndir viðburðir eru útlistaðir á síðum tíu og ellefu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×