Íslenski boltinn

Katrín Jónsdóttir: Verðskuldaður sigur

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Katrín þakkar fyrir sig eftir leik.
Katrín þakkar fyrir sig eftir leik. mynd/daníel
Eftir 19 ára landsliðsferil spilaði Katrín Jónsdóttir að öllum líkindum sinn síðasta landsleik í 2-0 tapi gegn Sviss á Laugardalsvelli í gær. Katrín átti fínan leik í miðri vörninni en náði ekki að koma í veg fyrir tap.

„Þetta var mjög svekkjandi tap, við ætluðum okkur mun meira úr leiknum í dag en við töpuðum,“ sagði Katrín eftir leikinn.

Katrín var svekkt að ná ekki marki snemma leiks, þess í stað náðu Svisslendingar að skora fyrsta mark leiksins í upphafi leiks.

„Við lögðum upp með öflugan varnarleik og ætluðum að ná marki snemma og reyna að pirra þær, þær verða pirraðar ef þær fá á sig mark snemma. Í stað þess skora þær eftir aðeins níu mínútur sem róaði leik þeirra. Við unnum okkur hægt og bítandi inn í leikinn og fórum að vinna bolta sem við unnum ekki í byrjun en svo taka þær aftur yfir leikinn um miðbik seinni hálfleiks,“

Gestirnir pressuðu hátt í leiknum og gekk íslenska liðinu illa að skapa sér færi. Um leið og komið var á síðasta þriðjung vallarins var mikið um slakar sendingar og lítil ógn.

„Við vissum að þær myndu pressa framarlega en við reyndum að breyta skipulaginu þegar leið á leikinn. Við vorum að missa boltann á hættulegum stöðum þannig við reyndum að spila lengri bolta. Það gekk vel í smástund en svo náðu þær aftur yfirhöndinni og unnu að lokum verðskuldaðan sigur. Þær voru betri í dag, það verður bara að segjast,“

Katrín var þó ekki alveg tilbúin að kvitta undir að þetta væri hennar síðasti leikur, hún útilokaði ekki möguleikann á að spila ef mikil meiðslavandræði kæmu upp.

„Auðvitað vill maður hjálpa liðinu ef upp koma meiðsli, það eru hinsvegar gríðarlega efnilegir leikmenn að koma upp, þar á meðal miðverðir. Ég þori ekki að segja neitt, það eru margir góðir leikmenn í íslensku deildinni sem eru að koma upp og geta vonandi axlað meiri ábyrgð,“ sagði Katrín að lokum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×