Erlent

Líknardrápum fjölgar í Hollandi

Þorgils Jónsson skrifar
Holland er eitt fárra ríkja í heiminum sem leyfir líknardráp með lögum. Slíkum tilfellum fjölgar ár frá ári.
Holland er eitt fárra ríkja í heiminum sem leyfir líknardráp með lögum. Slíkum tilfellum fjölgar ár frá ári. NordicPhotos/AFP
Líknardrápum í Hollandi fjölgaði um þrettán prósent í fyrra frá árinu áður að því er kemur fram í árlegri skýrslu frá nefndinni sem heldur utan um þessi mál.

Alls völdu 4.188 að skilja við með hjálp læknis í fyrra, en þetta er sjötta árið í röð sem fjölgun verður í þessum hópi.

Líknardráp voru leyfð með lögum í Hollandi árið 2002, til að hægt væri að binda enda á kvalir dauðvona sjúklinga en frá 2006, þegar tæplega 2.000 völdu þessa leið, hefur tilfellunum fjölgað ár frá ári. Nú er svo komið að þjú prósent allra dauðsfalla í Hollandi ár hvert er vegna líknardauða, en flest tilfellin eru vegna veikinda tengdum krabbameini.

Nefndin segir í skýrslu sinni að erfitt sé að geta sér til um hvers vegna líknardrápum hafi fjölgað. Flestir telji þó að aukin meðvitund um líknardráp og samfélagsleg viðurkenning, bæði meðal lækna og sjúklinga spili þar inní.

Líknardráp eru afar umdeild um heim allan og hafa sjúklingar staðið í langvinnum málaferlum til að fá viðurkenndan rétt sinn til þess að fá aðstoð til að binda enda á eigið líf. Líknardráp er meðal annars leyft með lögum, í einhverri mynd, í Hollandi, Belgíu, Lúxemborg og Sviss auk þess sem þrjú ríki Bandaríkjanna, Oregon, Washington og Vermont, hafa leyft slíkt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×