Hraunavinir hafa myndað varnarvegg í Gálgahrauni þar sem vegaframkvæmdir fara nú fram. Ómar Ragnarsson er á staðnum og hann segist allt benda til þess að rjúfa eigi varnarvegginn.
„Þeir komu alveg að okkur og stöðvuðu þar,“ segir Ómar en um tuttugu Hraunavinir eru á svæðinu. „Ég sé ekki nein merki um annað en að þessir menn ætli að ryðjast þarna inn með sinni vélaherdeild.“
Ómar segist ekki vita meira en þeir muni standa vaktina áfram. „Við spyrjum ekki þá menn sem ætla sér að taka lög og rétt í sínar hendur.“
Þá hefur Eiður Guðnason, fyrrverandi umhverfisráðherra, bæst í hópinn en að sögn Ómars hefur það lengi staðið til en hann ekki komist fyrr en nú. „Við vorum að tala um það við Eiður hvað það er ótrúlegt að þetta sé að eiga sér stað,“ segir Ómar. „Það er rétt að byrja málflutningur og þeir ætla að ryðja sér leið um hraunið. Hvers konar réttarríki er það þar sem hvaða fyrirtæki sem er getur farið sínu fram án þess að bíða dómsniðurstöðu?“
Ætla að ryðjast þarna inn með sinni vélaherdeild
Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
