Fótbolti

Reina sá fyrsti til að verja vítaspyrnu Balotelli

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Eftir 26 mörk úr 26 tilraunum kom að því. Mario Balotelli klúðraði vítaspyrnu.

AC Milan beið lægri hlut 2-1 gegn Napólí í Serie A í gær og eins og svo oft áður var Balotelli í aðalhlutverki.

Auk þess að klúðra vítinu eftir um klukkustundarleik fékk Balotelli gult spjald í leiknum, skaut í slána, gaf Mílanóliðinu von með glæsimarki í viðbótartíma og var rekinn útaf fyrir mótmæli í leikslok.

Tapið var það fyrsta hjá AC Milan á heimavelli frá því í nóvember. Um leið var það fyrsti deildarsigur Napólí gegn AC Milan síðan í apríl 1986.

AC Milan hefur fjögur stig að loknum fjórum umferðum. Napólí, undir stjórn Rafael Benitez, hefur hins vegar fullt hús stiga eftir fjóra leiki auk þess sem liðið vann frábæran sigur á Dortmund í Meistaradeild Evrópu í vikunni.

Nýju leikmenn félagsins, markvörðuinn Pepe Reina og framherjinn Gonzalo Higuain, virðast hafa aðlagast lífinu vel á Suður-Ítalíu. Higuain skoraði í báðum leikjum Napólí í liðinni viku og Reina varði fyrrnefnda vítaspyrnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×