Íslenski boltinn

Edda verður áfram hjá Val

Edda Garðarsdóttir lék með Valskonum síðari hluta Íslandsmótsins í sumar.
Edda Garðarsdóttir lék með Valskonum síðari hluta Íslandsmótsins í sumar. Mynd/Daníel
Edda Garðarsdóttir skrifaði í gær undir 2 ára samning við Val sem aðstoðarþjálfari meistaraflokks kvenna í knattspyrnu. Hún verður Helenu Ólafsdóttur til halds og trausts.

Eddu þarf vart að kynna fyrir knattspyrnuáhugamönnum en hún lagði knattspyrnuskóna á hilluna í sumar eftir fjöldamörg ár og fleiri hundruð leiki með félags- og landsliðum.

Edda mun einnig sjá um styrktarþjálfun hjá félaginu og ræddi um hlutverk sitt á heimasíðu Vals. Hún sagðist mjög spennt fyrir nýjum kafla í sínu lífi.

„Mér líst alveg gríðarlega vel á þetta starf, aðstaðan á Hlíðarenda er frábær og sannarleg mjög mikill efniviður í þeim hóp sem er hjá félaginu og ég hlakka til að takast á við þetta verkefni,“ segir Edda sem er næstlandsleikjahæsta landsliðskona Íslands.

„Vonandi tekst mér að miðla einhverju af þeirri reynslu sem að ég hef öðlast í gegnum tíðina til stelpnana og gera þennan góða hóp enn betri.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×