Innlent

Heimamenn vilja útiloka síld frá Kolgrafafirði

Svavar Hávarðsson skrifar
Þykkur síldarbingur þakti fjörur í firðinum.
Þykkur síldarbingur þakti fjörur í firðinum. Mynd/Vilhelm
Bæjarráð Grundarfjarðar skorar á Sigurð Inga Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, að leyfa lokun Kolgrafafjarðar án tafar vegna hættu á frekari síldardauða í firðinum. Ef þetta er tæknilega mögulegt vill bæjarráð að kannað verði hversu langan tíma Vegagerðin þarf til framkvæmda sem nægja til að halda síld utan brúar.

Eins og kunnugt er drápust um 50.000 tonn af síld í firðinum í fyrravetur og var mengun vegna þessa gífurleg á svæðinu.

Heimamenn lýsa yfir áhyggjum yfir hægagangi stjórnvalda varðandi viðbrögð við mögulegum síldardauða á meðan allt bendi til þess að ekki verði minna um síld á svæðinu en verið hefur undanfarna vetur.  

Ef tæknilega mögulegt vilja heimamenn loka leið síldarinnar undir brúna.Mynd/Vilhelm
Á vegum umhverfisráðuneytis er unnið að gerð viðbragðsáætlunar um aðgerðir ef síld drepst í firðinum. Tilraunir til að fæla síld frá því að ganga inn í fjörðinn, t.d. með ljósum eða hljóðum hafa ekki skilað tilætluðum árangri. Eina leiðin til að tryggja að síld gangi ekki inn í Kolgrafafjörð er því að loka firðinum, að mati bæjarráðs.

Rannsóknum fara nú fram til að varpa ljósi á áhrif þverunar fjarðarins á síldardauðann. Niðurstöður þeirra munu að líkindum ekki liggja fyrir fyrr en haustið 2014.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×