Viðskipti innlent

Gagnrýna KSÍ með nætursölu á sjónvörpum

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Mynd/Skjáskot á heimasíðu Max raftækja.
Max raftæki verður með afar veglegt tilboð á Samsung sjónvarpstæki í nótt. Á milli klukkan 04:00 til 07:00 í nótt verður 50% afsláttur á 32" Samsung LED sjónvarpi. Það er ekki tilviljun að Max raftæki kjósi að bjóða sjónvörpin á þessum frábæra afslætti í nótt og vilja með þessu framtaki gagnrýna miðasölu Knattspyrnusambands Íslands fyrir leik Íslands og Króatíu um miðjan nóvember.

„Við sáum okkur leik á borði. Við vildum vekja smá athygli og um leið gagnrýna KSÍ fyrir framkvæmdina á miðasölunni. Það er svolítið skrýtið að setja miðasölu í gang þegar allir eru sofandi,“ segir Viktor Rúnar Rafnsson, verslunarstjóri hjá Max Raftækjum.

Tíu sjónvörp verða í boði og verða þau aðeins seld í gegnum heimasíðu Max raftækja í nótt. Hver einstaklingur getur þó aðeins keypt eitt sjónvarp. „Við höfum fengið mikil viðbrögð og við verðum með mann á vakt til að passa að þetta gangi allt vel fyrir sig. Við gerum fastlega ráð fyrir að þessi tíu sjónvörp verði fljót að fara,“ segir Viktor Rúnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×