Fótbolti

Fékk rangar upplýsingar um hvenær miðasala hæfist

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sigmundur Einar ásamt yngri bróður sínum og systur.
Sigmundur Einar ásamt yngri bróður sínum og systur. Mynd/Samsett
„Ég hringdi í Mida.is í gær og maðurinn sagði mér að miðasala myndi byrja í fyrsta lagi klukkan 10 eða þá klukkan 12,“ segir Sigmundur Einar Jónsson, grjótharður stuðningsmaður íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu. Blaðamaður hefur heyrt frá öðrum stuðningsmanni sem fékk svipuð skilaboð frá starfsfólki Mida.is í gær.

Sigmundur Einar var einn þeirra fjölmörgu unnenda íslenska landsliðsins sem urðu af miðum í morgunsárið. Hann vaknaði skömmu fyrir átta í morgun til að fara í vinnuna enda þurfti hann ekki að hafa neinar áhyggjur. Hann hafði haft fyrir því að fá upplýsingar um hvenær sala hæfist til að hafa vaðið fyrir neðan sig.

„Við ætluðum að fara fjögur á leikinn. Ég, bróðir minn, besti vinur minn og svo ætlaði litla systir mín að fara á sinn fyrsta leik,“ segir Sigmundur Einar. Þeir bræðurnir hafa ekki misst úr landsleik í mörg ár.

„Þetta er það skemmtilegasta sem við bræðurnir gerum saman. Við höfum mætt á leikina allt frá því þetta var jarðarför og þangað til þetta varð svona skemmtilegt,“ segir Sigmundur Einar. Hann hefur verið að skoða miða í endursölu í morgun en finnst blóðugt að þurfa að borga allt að 15 þúsund krónur fyrir miðann.

Sigmundur vonast til þess að einhverjir góðhjartaðir einstaklingar, sem eigi auka miða, velti því að minnsta kosti fyrir sér að bjóða sér og bróður sínum að kaupa miðana á söluverði.

„Eða þá fyrirtækin sem að fengu miða,“ bætir Sigmundur Einar léttur við. Hægt er að hafa samband við Sigmund Einar í gegnum netfangið sigmundureinar89(hja)gmail.com.

„Maður er frekar súr yfir þessu og ég ætla að leyfa mér að vera pirraður fram yfir hádegi,“ segir stuðningsmaðurinn dyggi.

Uppfært:

Samkvæmt upplýsingum frá Miða.is bárust fjölda fyrirspurna um hvenær miðasala á leik Íslands og Króatíu myndi hefjast. Starfsfólk í þjónustuveri Miða.is hafði ekki upplýsingar um hvenær miðasalan myndi hefjast. Venjan er hins vegar sú að miðasala á hina ýmsu viðburði hefjist klukkan tíu eða tólf.  








Fleiri fréttir

Sjá meira


×